Markmiðin mín á árinu 2018

Í þetta sinn ætla ég að bregða aðeins út af vananum og fjalla um eitthvað annað en hár-og snyrtivörur. Mig langaði að segja frá hluta af þeim markmiðum sem ég hef sett mér fyrir árið 2018. Ég hef oft sett mér markmið en sjaldan skrifað þau niður á blað og þar af leiðandi á maður það til að gleyma þeim þegar líður á árið. Í þetta sinn ákvað ég að skrifa mín helstu markmið niður á blað. Árið 2017 byrjaði ég í raun í fyrsta sinn að hlaupa eitthvað að viti. Ég byrjaði á því að verða mér úti um app sem heitir from couch to 5 k en það er hægt að nálgast þá snilld á app store. Þegar ég kláraði það prógramm fór ég að hlaupa reglulega og fór mína fyrst 10 km síðasta sumar með manninum mínum. Þvílíkur sigur, mér fannst það allavega!

Þegar ég settist niður og fór að velta fyrir mér mínum markmiðum fyrir árið ákvað ég að árið yrði hlaupaár. Ég ætla mér að hlaupa 21,1 km, þ.e. hálfmaraþon í lok sumars. Mér finnst nauðsynlegt að setja mér eitt stórt markmið og svo nokkur minni skref sem eru skrefin að stóra markmiðinu (hálfmaraþoni). Ég ákvað því að byrja að undirbúa mig strax í janúar og setti mér fyrir markmið fyrir janúar, febrúar og mars. Ég setti mér það markmið að hlaupa 20 km á viku út janúar og ég hef náð að standa við það. Það er svo hvetjandi að vera búinn að skrifa markmiðið niður, þá eru minni líkur á að maður leyfi letinni að ráða.

Fyrir febrúar mánuð setti ég mér svo það markmið að hlaupa 25 km á viku og miðað við hvernig janúar hefur gengið ætti það ekki að verða mikið mál. Ég ætla svo að fara upp í 30 km í mars. Í apríl ætla ég að taka eitt langt hlaup á viku 10-15 km og þess á milli ætla ég að taka góðar þolæfingar (spretti og annað). Þetta er allt gert til að ná því markmiði sem ég setti mér, að hlaupa hálfmaraþon í Reykjavíkur maraþoni Íslandsbanka.

Það er mikilvægt að eiga góða skó ef maður er í hlaupunum og ég keypti mér nýja skó þegar ég fór til Barcelona í sumar. Þeir heita Nike Air Zoom Vomero 12 og hafa reynst mjög vel í öllum hlaupunum.

Það hefur reynst mér mjög vel að setja mér eitt stórt markmið og svo nokkur lítil sem öll eru til þess að ná þessu einu stóra og ég mun klárlega gera meira af þessu. Það er aldrei að vita nema ég stefni á maraþon á næsta ári!
Þið finnið mig á Instagram undir nafninu bryndisgyda